Troðfullt á Bítlatónleikum

Færri komust að en vildu á Bítlatónleikunum sem voru í Landnámssetrinu í gær 11. júní. Þar var á ferðinni hljómssveitin BANDIÐ BAK VIÐ EYRAÐ sem í eru þau Ása Hlín Svavarsdóttir söngkona, Zuzanna Budai á hljómborð, Sigurður Rúnar Jónsson á fiðlu og fleira, Ólafur Flosason á óbó, klarinett og fleira og Gunnar Ringsted á gítar. Hljómssveitin flutti bítlalöginn en kynnir var bítlasérfræðingurinn Ingólfur Margeirsson.

Tónleikarnir verða endurteknir í kvöld og þá er líka uppselt og verða því enn einir aukatónleikar á fimmtudagskvöldið 18. júní. Allir tónleikarnir hefjast kl. 21.

Það er greinilegt að BANDIÐ hefur hitt í mark með þessari dagskrá. Hver veit nema Bítlatónleikar Bandsins verði fastur liður á dagskrá Landnámsseturs.

 

 


Gestkvæmt á páskum og gott útlit fyrir sumarið.

Hér í Landnámssetri er búið að vera stanslaus straumur ferðamanna yfir hátíðina. Það lítur út fyrir að það muni mikið fleiri erlendir ferðamenn koma í Landnámssetur í ár en á síðasta ári. Þeir hafa verið u.þ.b. helmingur gestanna nú um hátíðarnar.  Frá opnun Landnámssetursins hefur verið mjög góð aðsókn hér hjá okkur, en u.þ.b. 90% gestanna hafa verið Íslendingar fyrstu árin. En nú virðist ferðaþjónustan vera farin að benda gestum sínum í miklu meira mæli á það að fara og heimsækja okkur og erum við sannarlega þakklát fyrir það. Enda erum við sífellt að reyna að bæta OKKUR SEM ÞJÓNUSTUAÐILA FYRIR ERLENDA GESTI. við erum td komin með hljóðleiðsögn á 10 TUNGUMÁLUM, íslensku, ensku, þýsku, fönsku, norsku, spænsku, ítölsku, pólsku, rússnessku, japönsku og barnaleiðsögn á íslensku.

 Af leiksýningunum hjá okkur er allt gott að frétta.  MR.SKALLA-GRÍMSSON er auglýstur í síðasta sinn í lok maí. Það er ákvörðun Benedikts Erlingssonar, að nú sé nóg komið. Ég sem þetta skrifa er samt viss um að hann kemur aftur til okkar síðla næsta vetrar og tekur upp þráðinn með þessa frábæru sýningu. Hvernig er hægt að hætta endanlega þegar eftirspurnin er meiri enn nokkru sinni og færri komast að en vilja. En...en.. Benedikt þarf á hvíld að halda, og MR.SKALLA-GRÍMSSON  er hættur í bili frá og með enda maí.

BRÁK, er í fullum gangi og sýningar orðnar meira en 100. Sýningar munu þó hætta  í haust vonandi tímabundið, því þá mun Brynhildur Guðjónsdóttir standa í eldlínunni á sviði Þjóðleikhúsins í nýju leikriti sínu um  FRÍDU KAHLO.

Svo er STURLUNGA-EINARS- "STORMAR OG STYRJALDIR" Sú snildar uppákoma hefur farið ljómandi vel af stað og það hefur verið uppselt á allar sýningar fram að þessu. Það má enginn missa af Einari í þessu sérstæða listformi sem er meira en venjuleg sagnamennska og samt eitthvað annað en leikhús. Höfundur sem segir sínar eigin bækur.....les þær ekki upp heldur segir efni þeirra. Þetta er eitthvað alveg nýtt og sérstakt. Enginn má missa af þessu.


Gáttaverkefni, útskrift og bein útsending

Það var mikið um að vera hjá okkur í dag mánudag 6.apríl. Byrjaði kl. 9:30 - þegar undir venjulegum kringumstæðum allt er enn lokað. Var mætt á svæðið til að undirbúa fund með félögum í ferðaþjónustu á Vesturlandi sem erum að vinna samstarfverkefni undir handleiðslu Nýsköpunar miðstöðvar þegar Helga Haraldsdóttir, ferðamálafulltrúi Samgönguráðuneytisins, Karitas Gunnarsdóttir úr Menntamálaráðuneytinu, Hallmar Sigurðsson, Elísabet Haraldsdóttir og fleiri kíktu við í kaffi á leið í Stykkishólm að undirbúa Menningarráðstefnu.

Fundur í Gáttaverkefninu byrjaði kl. 10 átti að standa til tvo enn allt og margt órætt þegar tæknimaður útvarpsins þurfti að komast til að stilla upp fyrir beinu útsendinguna sem átti að hefjast kl. fjögur. Við færðum okkur þá bara yfir á Sögulofti sem er mjög góður staður fyrir litla fundi.

Kl. fjögur hófst svo beina útsendingin en á sama tíma útskrift hjá Símenntun. Semsagt líf í hverju horni og fullt af útlendingum að skoða sýningarnar um Landnámið og Egil.

Svona eiga mánudagar að vera.Wink 

smg


Tími árshátíðanna

Það eru alltaf fleiri og fleiri fyrirtæki sem kjósa að halda árshátið í Landnámssetri. Á laugardaginn voru það starfmenn veitingahúsanna Maður lifandi og næsta föstudag koma til okkar yfir 120 starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar.

Menn lifandi komu um kl 17 og byrjuðu á að sjá leiksýninguna Mr. Skallagrímsson, fengu sér fordrykk í hlé og eftir sýningunna beið þeirra hlaðborð að hætti Landnámsseturs. Eftir skemmtiatrið og var slegið í og dansað fram að miðnætti og þá haldið í bæinn.

Árshátiðin á föstudag verður með öðru sniði og mjög spennandi verkefni fyrir okkur. Hingað til höfum við ekki gert ráð fyrir að geta tekið á móti nema um 100 manns í mat í einu en þau verða 120. Þá er ekki leiksýning en fordrykkur, 5 rétta kvöldverður, skemmtiatriði og dans. Það verður krefjandi verkefni að láta allt smella. En við erum búin að fara yfir alla þætti og ef skipulagið stenst (sem ég veit að það gerir) þá opnast enn nýjir möguleikar í Landnámssetri - þe að geta tekið á móti stórum hópum. 

Í dag var verið að plana hvernig við komum upp myndavél í Arinstofu sem varpar á skjá niður í aðalsalinn - þetta verður reynt á morgunn.....  Gísli Einars og Kjartan fara í málið....  læt vita hvernig það tókst


Brák okkar komin aftur

Brák 5Mikið skelfing vorum við glöð þegar Bryhildur lét undan beiðni okkar að setja inn fleiri sýningar. Það hafa verið að myndast þetta 30 -40 manna biðlistar á hverja sýningu og næsta sýning ekki fyrr en í maí. En semsagt breytingar hafa orðið á plönum með frumsýningu á sýningunni sem Brynhildur og Atli Rafn eru að vinna í Þjóðleikhúsinu þannig að það var smuga að setja inn sýningar í mars og apríl og líka í byrjun maí.

 

Nú hvet ég þá sem ætla sér að sjá sýninguna að drífa sig að bóka - Brynhildur fer svo í frí í sumar og ekkert að vita hversu mikið hún getur sýnt næsta vetur.

 smg


Góð helgi í Landnámssetri

Það voru fjórar leiksýningar um helgina í Landnámssetri og þó er BRÁK ekki talin með. En vegna mikillar aðsóknar hefur verið ákveðið að efna til nokkarar aukasýninga á Brák í mars og apríl. Enn eru laus sæti á tvær sýningar í mars.

Sýningarnar fjórar um helgina voru Mr. Skallagrímsson  sem var sýndur tvisvar. Ein afar skemmtileg gestaleiksýning frá Ísafirði, en þar sagði leikarinn Elfar Logi Hannesson Gísla sögu Súrssonar í stuttan en hnitmiðaðan hátt og svo Stormar og styrjaldir eða Sturlunga Einars Kárasonar eins og við erum farin að nefna hana. Einar torðfyllti Söguloftið og fór á kostum.

Á sunnudögum er fjölskyldutilboð í Landnámssetri. Þá er ókeypis á sýningarnar föstu sýningarnar  Landnáms- og Egilssýninguna fyrir börn í fylgd með fullorðunum. Það er alveg gráupplagt að fara í sunnudagsbíltúr í Borgarnes. Fara í sund og sjá sýningarnar í Landnámssetri. Svo er á boðstólum ömmukaffi, þe pönnukaka með rjóma, pönsa með sykri og kleina og svo mjólk, kaffi eða gos. Pönnuköku uppskriftin er ekta ömmu - uppskrift. En hún kemur frá ömmu hennar Áslaugar sem vinnur hjá okkur.  Galdur þeirrar ömmu var að setja smá svart kaffi í deigið. Og viti menn - pönnukökurnar fá á sig mjúkan brúnan lit og eru ótrúlega góðar.

Seiðkonusúpan okkar sló líka í gegn um helgina. Margir báðu um uppskriftina sem er algjört leyndarmál, nema við getum upplýst að við notum Svarta galdurs te frá Sverri Guðjóns sem hluta af kryddinu og svo auðviðað margt fleira... hún var góð fyrir en teið hans Sverris gerði kraftaverk.....

Það er mikið starf framundan - mörg fyrirtæki sem vilja halda hjá okkur árshátíð og fundi og svo eigum við von á fullt af skólum í heimsókn með vorinu.


Margir að vinna að umbótum í ferðamálum á Vesturlandi

Á fundi sem ég var á nýlega kom í ljós að fjöldi fólks er að vinna að hinum ýmsu verkefnum til þess að efla ferðaþjónustu á Vesturlandi. Mörg þessara verkefna skarast og upp vaknaði spurningin hvernig hægt væri að koma upplýsingum á framfæri við fólk um það sem verið er að gera. "Blogga um það" sagði einhver, og það ætla ég að gera hér með. Ég tek nefnilega þátt í amk þremur hópum - sennilega fleiri - sem hver á sinn hátt vinna að spennandi verkefnum til eflingar ferðaþjónustu.  Ég ætla því að reyna að vera svoldið dugleg við að greina frá þeim verkefnum sem ég tek þátt í og bið fólk að koma á mig upplýsingum sem ég get sett hér inn.  Það eru nefnilega mörg sóknarfæri og mikil tækifæri sem bjóðast þeim sem hafa hugmyndir og vilja vera með.

Má ekki vera að að skrifa mikið núna - þarf að vera hress á morgun því þá mæti ég í tíma hjá nemendum á ferðamálabraut í Versló til að tala um Landnámssetrið sem aðdráttarafls í ferðaþjónustu.  Segi ykkur frá því á morgun og á þriðjudaginn förum ég og Benedikt Erlingsson norður í Skagafjörð til að tala um hvernig hægt er að gera sögurnar að söluvöru.

 


Sameinuð stöndum vér

Jólafögnuður 08 006Nýi menningarsalurinn í Menntaskóla Borgarfjarðar var troðfullur í gærkvöldi þegar Gleðileikurinn um fæðing Jesú Kristi eftir Kjartan Ragnarsson og Unni Halldórsdóttur var þar fluttur í fyrsta sinn. Mál manna er að þarna hafi verið um 500 manns - ef það er rétt eru það fjórðungur íbúa í Borgarnesi. Það var ótrúleg tilfinning að upplifa þessa samkomu sem byrjaði í kirkjunni með bænastund klukkan sex. Þegar komið var úr kirkju var Guðrún Kristjáns, formaður Björgunarsveitarinnar Brákar fyrir utan ásamt félögum og gaf fólki friðarljós sem gengið var með að Menntaskólanum. Leiðin lá niður Himnastigann að Tónlistarskólanum og þar stóðu tenórar á svölum og sungu Heilaga nótt. Gleðileikurinn hófst svo á söng Kammerkórsins undir stjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar en auk Kammerkórsins söng Freyjukórinn undir stjórn Zsuzanna Budai og Barnakórar Borgarneskirkju undir stjórn Steinunnar Árnadóttur. 13 leikarar léku í sýningunni sem öll var í bundnu máli. Höfundar texta eru Kjartan Ragnarsson og Unnur Halldórsdóttir.  Hugmyndin sem kviknaði rétt eftir bankahrunið virtist galin en...... byrjað var að hringja í menn og fá með í leikinn og allir sögðu já - og allir gáfu allt. ALLIR ótrúlegt og þeir sögðu ekki bara já... heldu mættu til vinnu á kvöldin, það var smíðað, saumað, málað og æft, bæði leikarar og söngvarar. Og meira að segja veðrið var gott eftir beljandi hríð og hvassvirðri undanfarið. Takk Borgfirðingar allir sem tóku þátt og allir sem mættu til að horfa. Við endurtökum leikinn að ári. 27. desember 2009 kl. 18. Það er sunnudagur.

Jólafögnuður 08 002Á þessari mynd má sjá Gísla Einarsson í hlutverki Heródesar og vitringana frá Austurlöndum, en þá léku tveir rektorar og einn skólameistari, þeir Ágúst Einarsson á Bifröst, Ágúst Sigurðsson á Hvanneyri og Ársæll Guðmundson frá menntaskólanum. Á myndinni fyrir ofan eru Jóhannes B. Jónsson og Katerina Inga Adolfsdóttir í hlutverkum Maríu og Jósep. Ég sjálf var svo upptekin af að syngja og horfa í gær að ég tók ekki myndir. En einhverjir hljóta að hafa gert það.. vill sá eða sú vera svo væn að senda okkur nokkrar á landnam@landnam.is

smg


Að búa til minningar

Pönnukakan 2Uppáhald jólasveinanna og Pönnukakan hennar Grýlu

Í fyrra ákváðum við í Landnámssetri að setja saman skemmtun fyrir barnafjölskyldur á aðventunni. Hugmyndin kviknaði þegar hópur frá, að mig minnir Capasent, kom til okkar á aðventunni 2006 með börnin til að skoða Sögusýningarnar og fá heitt kakó. Það var dásamlegt veður snjór yfir öllu og stillur, heiðskýr himinn og norðurljós á leiðinni heim.

 

Fólkið var svo ánægt með að hafa drifið sig út úr bænum með börnin útúr skarkala stórmarkaðanna í kyrrð og rökkur sveitarinnar, það hittist svo skemmtilega á að við vorum með úrslit í smákökusamkeppni þennan dag og höfðum ákveðið að dansa í kringum jólatré að því tilefni þannig að þarna skapaðist óvænt einhver notaleg jólastemning. Okkur langaði til að endurtaka þetta árið eftir og þegar við fréttum að Bernd Ogrodnik sá mikli brúðusnillingur væri á ferð með brúðusýninguna sína Pönnukakan hennar Grýlu ákváðum við að setja þessa fjölskylduskemmtun saman.

 

Við eldum þjóðlegan íslenskan mat, uppáhaldsmat jólasveinanna, bjúgu með rauðkáli og upppstúf,  plokkfisk, steikt slátur með rófustöppu og kjötbollur með brúnni sósu. Í eftirrétt er svo skyr, grjónagrautur með möndlu að sjálfssögðu og ROYAL súkkulaðibúðingur. Borðhaldið hefst um kl. 12.  Einhverntíma á meðan á borðhaldi stendur má eiga von á glorhungruðum jólasveinum – beint ofan af Hafnarfjalli. Þeir reyna að krækja sér í bita og beita til þess ýmsum brögðum. En róast svo þegar þeir hafa fengið nægju sína og dansa með krökkunum í kringum jólatréð. Kl. 14 hefst svo brúðuleiksýningin Pönnukakan hennar Grýlu. Við reynum a stilla verðinu í hóf  td er frítt í matinn fyrir börn yngri en 6 ára. 6 – 14 ára borga kr. 1500 en fullorðnir kr. 2800. Matargestir greiða síðan kr. 1000 á brúðusýninguna en það er líka hægt að fara bara á sýninguna en þá kostar það kr. 1500.

 

Nú endurtökum við leikinn og erum vonandi með því að skapa hefð sem verður fastur liður á aðventunni í Landnámssetri. Aðventan er svo mikið tími hefðanna. Þá eru góðar minningar búnar til og síðan endurteknar ár eftir ár.  SMG

 

LJÓSIÐ Í MYRKRINU

Ætla ekki að blogga um efnahagsástandið þó ég hafi margt um það allt að segja vil heldur vekja athygli á verkefni sem við í Landnámssetri tökum þátt í þessa dagana með félögum okkar í Upplifðu allt hópnum eða All Senses sem ber yfirskriftina LJÓSIÐ Í MYRKRINU. Það þurfti reyndar ekki svartnætti til að við kæmum auga á mikilvæti samvinnunnar.  All Senses Group hefur nú starfað saman í um þrjú ár og í fyrra stóðum við fyrir ráðstefnu í febrúar sem bar einmitt yfirskriftina LJÓSIÐ Í MYRKRINU þá var þessi mynd gerð. Lógóðið okkar er fjöður og það er hún sem myndar logann á kertinu. Á vinnufundi um miðjan október ákváðum blása ti sóknar og kynna sameiginlega þá fjölda viðburða sem félagar standa fyrir í október undir slagorðinu  Ljósið í myrkrinu og eru til þess fallnir að létta mönnum lund í skammdeginu. Margir viðburða eru ókeypis og því ætti enginn að láta efnahaginn fæla sig frá að mæta.  Dagskráin í fullri lengd er á heimsíðu okkar www.landnamssetur.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Landnámssetur Íslands ehf

Höfundur

Landnámssetur Íslands ehf
Landnámssetur  Íslands ehf
Landnámssetur er í Borgarnesi. Þar er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu eins og leiksýningar, sýningar um landnámið og Egils sögu. Þar er einnig starfrækt gott veitingahús með ókeypis nettengingu sem opið er alla daga til kl. 17 og lengur frameftir um helgar. Í Landnámssetri er líka falleg gjafavöruverslun með úrvali óvenjulegra gjafa flesta eftir íslenska hönnuði.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • BRÁK,JÓL OG ÁRAMÓT 098
  • plaggat
  • Frá frumsýningu
  • ...frumsyningu
  • Brák netútgáfa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband