Færsluflokkur: Bloggar

ÞRJÁR SÝNINGAR Í APRÍL

Jæja gott fólk - nú er sko tækifæri að skella sér í leikhús í Borgarnes. Í Landnámssetrinu eru á boðstólum þrjár úrvals sýningar þó hver annari ólíkari.

Þarna eru á ferðinni

Frá frumsýningutónlistarmaðurinn Gunnar Þórðarson með sýninguna Gunni Þórðar - lífið og lögin. Þessi mynd var tekin á frumsýningu þar sem áhorfendur stóðu upp og fögnuðu í lokin. En síðan er það nánast regla að áhorfendur gefi það sem kallað er "standing ovation" í lok sýninga - eitthvað sem er ekki algengt í íslensku leikhúsi.

 

plaggatJón Gnarr með óborganlegt uppistand sem hann kallar Jón Gnarr  - lifandi í Landnámssetiri. Á þessari mynd er Jón Gnarr með hundinn sinn og hann er sko líka sprell-lifandi. Ef þið stækkið myndina sjáið þið augnarráð hundsins. Skemmtilegt ekki satt?

Hundurinn er ekki með í sýningunni en áhorfendur eru svo hundheppnir að mega leggja fram beiðni um umræðuefni  - skrifa á miða tillögur sem settar eru í pípuhatt. Galdrameistarinn dregur þær síðan upp í sýningunni og spinnur út frá þeim ef honum bíður svo við að horfa.  Semsagt engin sýning er eins allt getur gerst.  

 

BRÁK,JÓL OG ÁRAMÓT 098og síðast en ekki síst Brynhildur Guðjónsdóttir með sína margverðlaunuðu BRÁK.

Hér er Brynhildur með manninum sínum Atla Rafni Sigurðarsyni leikstjóra, að fagna í lok 100. sýningarinnar. Síðan er liðið eitt ár og sýningarnar farnar að nálgast 200. Brynhildur hefur kosið að hætta eins og Benedikt Erlingsson gerði vegna anna en féllst á, vegna fjölda áskoranna, að leika fjórar sýningar í apríl.

Öll eru þau Gunnar, Brynhildur og Jón listamenn á heimsmælikvarða og við erum þeim þakklát fyrir að nenna að skottast uppí Borgarnes, gegnum göngin og til baka aftur til að skemmta gestum á Söguloftinu.

Og hvað fær þau til þess? Jú, það er einhver mögnuð stemning sem skapast á hinu aldagamla lofti, sem var byggð fyrir meira en 100 árum til að hýsa hveitisekki, sykurpoka og annan varning sem ekki þoldi raka. Þarna var fyrst lagt rafmagn og hiti árið 2006 en síðan þá hefur hver listamaðurinn á fætur öðrum stigið á stokk, staðið aleinn með ekkert nema sjálfan sig og áhorfendur sér til hjálpar, lítil lýsing - nánast engin leikmynd, listamaðurinn berskjaldaður í algjöru návígi. Það er eitthvað magist við það og alveg þess virði að leggja á sig ferðalag í Borgarnes.

Semsagt næsta föstudag 26. mars er Jón Gnarr með sýningu kl. 20 og ennþá eru nokkur sætil laus, á laugardaginn er það Gunni Þórðar kl. 17 og nánast að verða uppselt og í apríl verður svo Brynhildur með fjórar sýningar á Brák vegna fjölda áskoranna. Brák var frumsýnd í janúar 2008 - löngu fyrir Hrun og sýningar fara að nálgast 200 sem hlýtur að teljast gott fyrir lítið leikhús úti á landi. 

 Við hlökkum til að sjá ykkur í Borgarnesi það er ekki eins langt að fara og þið haldið.


Gleðileikurinn Guðdómlegi

Leikararnir sem léku í Hinum Guðdómlega gleðileik um fæðingu Jesú Kristí sem fluttur var í Menntaskólanum í Borgarnesi á þriðju jólum í fyrra komu saman til fyrsta samlestrar í gær mánudaginn 7. desember.

Nánast allir sem voru með í fyrra verða aftur með í ár og er heilmikil tilhlökkun í hópnum. Hugmyndin er að gera þetta allt eins líkast því og gert var í fyrra enda eru jólinn tími hefðanna og engin ástæða til að breyta nokkru. Þó er aldrei að vita nema einhver minni í viðburði líðandi árs bætist við en það ræðst af efnum og aðstæðum.

Hópurinn er semsagt búinn að hittast og nú er bara að dusta rykið af leikmyndinni og búningunum og taka daginn frá.

Nú eins og í fyrra hefst Gleðileikurinn með stuttri helgistund í Borgarneskirkju kl. 18. Að því loknu afhendir Björgunarsveitin blys fyrir utan kirkjuna. Allir ganga svo í blysför niður himnastigan með viðdvöl við Tónlistarskólann þar sem sungin eru jólalög. Gleðileikurinn hefst svo í Menntaskólanum um kl. 19 eða þegar blysförin er komin í hús og fólk hefur komið sér fyrir.

Kórarnir sem taka þátt eru Barnakór Borgarbyggðar, Freyjukórinn og Kammerkór Vesturlands.

 


Skemmtilegt samstarf

Skemmtilegt project á leiðinni frá Vesturlandi - fyrir börnin. Má ekki segja meira í bili. Var að koma af vinnufundi með félögum okkar í verkefninu sem eru Steinar í Fossatúni, Ingi Hans og Sigurborg í Sögumiðstöðinni, Guðbjörg úr Þjóðgarðinum, Arnheiður frá Bjarteyjarsandi, Kristrún frá Sæferðum, Helga á Eiríksstöðum og Guðný Dóra í Gljúfrasteini sem komst reyndar ekki að þessu sinni. Brutumst til baka í hríð og byl. Mikið á sig lagt - en vel þess virði. Fengum góða punkta frá leiðbeinendum okkar henni Guðrúnu frá Hólum og Sirrý frá Impru. Þetta er Gáttaverkefni styrkt af Nýsköpunarmiðstöð.

Fáið að vita meira síðar.

 


Í samstarfi við gistiheimilin í Borgarnesi

Landnámssetrið og nokkrir aðilar sem bjóða gistingu í nágrenni þess bjóða í vetur uppá leikhústilboð þe leikhúsmiða, kvöldverð og gistingu fyrir innan við 20. - 23 þúsund fyrir hjón. Semsagt leikhús, matur, gisting og morgunmatur fyrir 9 - 12 kr á mann.

Um er að ræða gistingu í Borgarnes Bed and Breakfast og Borgarnes Hostel sem er farfuglaheimili við aðalgötuna í Borgarnesi . Pakkinn ef gist er í Borgarnes BB kostar kr. 22.500 fyrir tvo en ef gist er á Borgarnes Hostel kr. 19900 fyrir tvo.

Bókanir og frekar upplýsingar eru í síma 437 1600 eða á landnam@landnam.is

smg


Vest norden ferðaráðstefnan

Nýkomin af Vest norden ferðaráðstefnunni sem að þessu sinni var haldin í Kaupmannahöfn. Þarna hittist fólk í ferðaþjónustu í Færeyjum, Íslandi og Grænlandi og kynnir vorur sínar fyrir kaupendum sem koma alls staðar að úr heiminum.

Ég var þarna til aðstoðar Jónasi Guðmundssyni forstöðumanni markaðsstofu og hafði það hlutverk ásamt honum að benda á alla þá þjónustu og afþreyingu sem er í boði á Vesturlandi.

Það var gaman að finna hvað áhugi þeirra sem eru að skipuleggja ferðir hefur aukist á því að beina gestum inná Vesturland. Það er líka gaman að heyra sögur af ánægðum ferðskipuleggjendum sem fá góða umsögn frá gestunum þegar þeir koma til baka. Langmikilvægast er hreinlætið - það er númer eitt, tvö og þrjú.

Nú er mikilvægt að senda gögn til þeirra sem báðu um þau - ferðatillögur og leiðbeiningar. Það væri líka gott að gera gönguleiðakort. Margir sem biðja um það. Er kannski einhver sem á slíkt eða veit um það.


Samtök um sögutengda ferðaþjónustu með kynningarátak

Á morgun kemur hópur þýskra blaðamanna í Landnámssetur á vegum Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu og ferðaskrifstofanna Ísafold og Katla Travel. Þetta er þriðji hópurinn sem kemur í Landnámssetur síðan í lok ágúst til að kynnast af eigin raun skemmtilegri ferð sem sett hefur verið saman af þeim Rögnvaldi Guðmundssyni, verkefnisstjóra Sögutengdrar ferðaþjónustu, Jóni Baldri Þorbjörnssyni, frá ferðaskrifstofunni Ísafold og Helmut Lugmayer frá Katla Travel. Þeir kalla ferð sína Saga Trail.

Ferðin tekur fimm daga og þræðir söguslóði í Borgarfirði, farið er um Dalina þar sem Eiríksstaðir eru heimsóttir, þaðan norður í Skagafjörð á slóðir Sturlunga, suður Kjöl, á Þingvöll, í Skálholt og endað í Víkingaþorpinu í Hafnarfirði. Þó megin þema ferðarinnar sé sagan liggur leiðin um miklar náttúruperlur.

Blaðamennirnir sem fengu boð um að taka þátt í þessari ferð koma frá Bretlandi, Skandinavíu og Þýskalandi. Aðeins var 8 boðin þátttaka í hverri ferð og komust mun færri að en vildu. Þeir voru valdir af kostgæfni í samráði við markaðskrifstofur í viðkomandi löndum og með það að markmiði að skrif þeirra skiluðu okkur sem flestum ferðamönnum. 


Sögulandið Vesturland

Mikið starf hefur verið unnið undanfarin ár við að kynna ferðaþjónustu á Vesturlandi og hvað þar er í boði fyrir ferðamenn. Markaðstofa var sett á laggirnar og ráðin forstöðumaður hennar, ný upplýsingamiðstöð tók til starfa á gatnamótunum í Stykkishólm og heimasíða hefur verið efld og bætt.

Þegar rætt var um hvað ætti helst að draga fram sem einkenndi Vesturland umfram aðra landshluta var ákveðið að það yrði Sagan í náttúrunni. Þó sagan sé allstaðar og allt um kring á Islandi getur ekkert landssvæði státað af eins mörgum Íslendinga sögum og Vesturland. Þar gerðist Egilssaga, Gunnlaugssaga Ormstungu, Laxdælasaga, Eyrbyggja, Bjarnasaga Hídælakappa, Hæsna-Þórissaga, Harðarsaga Hólmverja, Hellismannasaga og þar bjó ein merkasti rithöfundur Íslands Snorri Sturluson. Auk þess líta nýjar sögur tengdar náttúrinni stöðugt dagsins ljós og má sem dæmi nefna Tryggðartröll eftir Steinar Berg sem fjallar um skessuna í Fossatúni og sögur af álfum í klettunum við Hraunsnef.

Eftir að ákveðið var að marka Versturlandið sem Söguland hafa amk fimm ferðaskrifstofur skipulagt ferðir sem sérstaklega eru ætlaðar þeim sem áhuga hafa á Sögunni. Ferðirnar eru mjög mismunandi að lengd og innihaldi - allt frá einum degi uppí í 10 daga ferðir.  Í sumum er farið norður eða suður um land í Skagafjörðinn eða Skálholt.

Það er allavega augljóst að áhugi ferðamanna á sögunni er mikill.  Fólk hefur svo gaman af því að heyra sögur í tengslum við staðina sem það heimsækir. Sagan er mikil auðlegð sem við á Vesturlandi eigum að nýta okkur.  

Í næstu viku verður ferðaráðstefnan Vest Norden haldin í Kaupmannahöfn. Þar verða amk 8 fulltrúar frá Vesturlandi, þrír frá Hótel Glym, tveir frá Sæferðum og tveir frá Markaðsskrifstofunni.

Þar verður Vesturland kynnt sem Sögulandið og verður spennandi að sjá hverju það skilar.


Mikil fjölgun

Það er sama við hvern maður talar allir sem starfa að ferðaþjónustu eru á einu máli um að ferðamenn séu mun fleiri í ár en í fyrra. Í Landnámssetrinu var algjör sprenging í júlí, bæði í aðsókn á sýningarnar og í veitingahúsið. Nú er það svo að veitingahúsið er fullt nánast öll kvöld.

Þetta eru að sjálfssögðu gleðifréttir og við vonum bara að guð láti á gott vita og aðsóknin haldi áfram eitthvað inní veturinn.

 

 


Vel heppnuð Brákarhátíð

Hlauparar

Laugardaginn 27. júní var haldin hátíð til heiðurs Brák, fóstru Egils Skallagrímssonar. Brák var ambátt, réttlaus með öllu en sýndi það hugrekki þegar Skallagrímur í æðiskasti ætlaði að drepa Egil af því hann var að taka fyrir honum í knattleik og sagði þessi fleygu orð "hamast þú nú að syni þínum Skallagrímur". Skallagrímur sneri sér þá að Brák en hún tók á rás niður nesið í átt að sjónum, stakk sér á sund en Skallagrímur henti á eftir henni steini miklum og kom hvorki upp síðan.

Dagurinn byrjaði á að hlaupið var frá tjaldstæðinu á Granastöðum sem leið lá í gegnum Borgarnes, svipaða vegalengd og Brák hljóp. Keppt var í 4 flokkum kvenna og karla. Úrslitin verða birt á hlaup.is á næstunni.

Í hádeginu voru gönguleiðsagnir um Borgarnes í boði og leiðsögn á sýninguna Börn í 100 ár en kl. 13:30 hófst athöfn niður við Brákarsund þar sem Brúðan Brák reis upp úr sundinu. Það voru krakkar vinnuskólanum sem bjuggu brúðuna til undir leiðsögn Bernd Ogrodnik brúðugerðarmanns og Guðmundar Karls Sigríðarsonar.

Brák netútgáfaBrúðan leiddi síðan skrúðgöngu í Skallagrímsgarð þar sem fjölbreytt dagskrá hófst kl. 14 þar var flutt ljóð, sýnd Víkingatíska, hveðnar rímur, farið í spurningaleik og dagnsaður víkivaki. Heiðursgestir hátíðarinnar voru víkingar úr Víkingfélaginu Hringhorna frá Akranesi. Í lok dagskrárinnar á sviðinu sýndu þeir gestur víkingaleiki við mikinn fögnuð, hvatningu og klapp og fengu svo krakka með sér í leikinn.

Um allan garð var svo eitthvað við að vera. Kvenfélagskonur seldu kaffi, Old boys í körfuknattleiksdeild Skallagríms grillaði Brákarbita (marinerað hrefnukjöt á teini.) Körfuknattleiksdeildin var svo með Kompudaga þar sem ýmiss varningur úr kompum Borfirðinga fékkst við vægu verði. Ráðgert er að endurtaka kompudaga áfram í sumar.

Í garðinum var líka handverksfólk hvaðan æfa að. Vattasaumskonur og eldsmiðir úr Dölunum, tréskurðarmenn frá Akranesi og matargerðarkonur úr Þjóðháttasmiðjunni Askur og Embla. Einnig voru handverkskonurnar Snjólaug og Eygló úr Borgarfirði, norn sem las í rúnir og margir fleiri.

Jóhanna á Háafelli kom á staðinn með fjóra indislega kiðlinga og Júlíus á Tjörn sýndi landnámshænur og hana.

Krakkarnir léku í kuppleik og fleiri leikjum og veðrið lék við gesti.  Heitasti dagur sumarsins til þessa.

Eftir þessa vel heppnuðu hátíð er ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka leikinn að ári - síðasta laugardag í júní þann 26. júní árið 2010.

Og nú er um að gera taka daginn frá - þjálfa fyrir hlaupið og KOMA SVO!!

 


Kvennahlaup góð upphitun fyrir Brákarhlaupið næsta laugardag

Kvennahlaupinu var að ljúka í Borgarnesi.  Þetta er 20. hlaupið og alveg æðislegt kikk að taka þátt. Ég hljóp alla leiðina, átti sko ekki von á að geta það.  þetta var líka góð upphitun fyrir Brákahlaupið næsta laugardag.  Þá verður hlaupið til heiðurs Þorgerði Brák og í framhaldi höldum við bæjarhátíð með skrúðgöngu og fleiru.

 Kynnið ykkur endilega dagskrána á landnam@landnam.is. ALLIR Í BORGARNES UM NÆSTU HELGI.

 kkv Sirrý


Næsta síða »

Um bloggið

Landnámssetur Íslands ehf

Höfundur

Landnámssetur Íslands ehf
Landnámssetur  Íslands ehf
Landnámssetur er í Borgarnesi. Þar er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu eins og leiksýningar, sýningar um landnámið og Egils sögu. Þar er einnig starfrækt gott veitingahús með ókeypis nettengingu sem opið er alla daga til kl. 17 og lengur frameftir um helgar. Í Landnámssetri er líka falleg gjafavöruverslun með úrvali óvenjulegra gjafa flesta eftir íslenska hönnuði.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • BRÁK,JÓL OG ÁRAMÓT 098
  • plaggat
  • Frá frumsýningu
  • ...frumsyningu
  • Brák netútgáfa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 14022

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband