18.12.2007 | 10:30
Uppáhald jólasveinanna og pönnukakan hennar Grýlu. Vel heppnuð tilraun!
Í fyrra kom til okkar hópur frá fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem ákvað að bregða út af vananum og í stað þess að fara saman í hefðbundið jólahlaðborð að gera hlé á jólaamstrinu og gera eitthvað skemmtilegt með börnunum. Ákveðið var að fara upp í sveit og ferðinni var heitið í Landnámssetur. Þar var snæddur hádegisverður og sýningarnar skoðaðar. Svo vel vildi til að við vorum með úrslit í smákökusamkeppni þennan dag og jólasveinn kom í heimsókn og hún Steinunn okkar spilaði á harmónikku og gengið var í kringum jólatréð. Jólastemning var róleg og falleg og börn og fullorðir fóru alsælir heim. Óku undir stjörnubjörtum himni heim eftir vel heppnaðan dag.
Eftir þessa reynslu ákváðum við nú í vetur að skipuleggja uppákomu fyrir þá sem hugsanlega vildu feta fótspor þessa hóps. Við settum saman hádegiverð með þjóðlegum réttum - uppáhaldsmat jólasveinanna! Það eru að sjálfssögðu bjúgu, (Bjúgnakrækir) plokkfiskur, (Stekkjastaur) lambasteik, (Kjötkrókur), skyr (Skyrgámur), grjónagrautur (Askasleikir) og Royal súkkulaðibúðingur (Þvörusleikir). Nú jólasveinarnir runnu á lyktina og laumuðu sér í bjúgu og hrekktu krakka, mömmur og pabba. Svo var gengið í kringum jólatréð og kl. 14 hófst brúðuleiksýningin Pönnukakan hennar Grýlu eftir Bernd Ogrodnik. Bernd hefur átt þessa fallegu sýningu í farteskinu í mörg ár og er hún því orðin klassik sem hægt er að sjá aftur og aftur. Berd býr allar brúðurnar og umgjörðina til sjálfur og stjórnar, talar og syngur fyrir þær allar auk þess að spila undir á gítar. Þessi sýning er ætluð allra yngstu áhorfendunum en er eins og allar góðar barnasýningar fyrir börn á öllum aldri.
Þessi tilraun tókst að okkar mati afar vel og munum við örugglega gera þetta að árvissum viðburðum á aðventunni. Þarna komu heilu fjölskyldurnar, vinnustaðir og einstaklingar sem nutu þess að vera saman og gleyma jólaamstrinu og taka smá forskot á jólin.
Munið eftir þessum möguleika þegar þið farið að skipuleggja jólauppákomuna næstu jól.
Um bloggið
Landnámssetur Íslands ehf
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 14296
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.