Miklir möguleikar í Eyjum

Við Kjartan vörum að koma frá Vestmannaeyjum þar sem héldum fyrirlestur um tilurð  Landnámsseturs. Þetta var á alþjóðlegri ráðstefnu um Tyrkjaránið 1627. Það var Sögusetrið 1627 sem stóð að ráðstefnunni. Markmiðið var tvíþætt að mynda tengsl við erlenda fræðimenn sem fjallað hafa um þrælasölu í Evrópu fyrr á öldum og leita leiða til að setja þessa sögu fram á aðgengilegan hátt fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Þar var þar sem við Kjartan komum inn. Við sögðum frá því hvernig staðið var að því að koma Landnámssetri á koppin, löngum undirbúningstíma, fjármögnun og rekstri. Vonandi gátum við einhverju miðlað af reynslu okkar sem nýtist við undirbúning að sýningu um Tyrkjaránið. Ráðstefnan var reyndar ekki síður fróðleg fyrir okkur og gaman að kynnast fólki sem hefur rannsakað þessa makalausu atburði. Þarna var að sjálfssögðu Steinunn Jóhannessdóttir sem lagt hefur á sig ótrúlega vinnu til að segja sögu Guðríðar Símonardóttur og nú er reisubók Ólafs Egilssonar ein besta samtímaheimildin um þessa atburði sem völ er á komin út á ensku. Þýðendur bókarinnar Adam og Karl Smári voru á staðnum og ég hlakka til að lesa bókina.

Við hittum líka Kristínu menningarfulltrúa Vestmannaeyja sem er prímus motor í að vinna með  eldgosið 1973 og hina dramatísku viðburði sem því fylgdu. Það verkefni er líka í mótun og spennandi að fylgjast með hvernið það þróast.

Það er mikið sóknarfæri í Eyjum núna þegar allt útlit er fyrir að höfn í Bakkafjöru verði að veruleika árið 2010 og sigling þangað verði aðeins um 20 mín. En það þarf að nýta tímann vel því það væri svo frábært ef hægt væri að opna sýningar tengdar báðum þessum verkefnum við vígslu Bakkaferjunnar. Tvö ár eru ekki langur undirbúnings tími þannig að það þarf að nýta hann vel.

En þetta getur vel náðst því það eru eldhugar til staðar til að drífa verkefnin áfram. Bæði Kristin og hennar fólk með gossöguna og Sigurð Vilhelmsson, Þórður Svansson og fleiri með Tyrkjaránið. Heilmikið hefur þegar verið gert - og menn eiga sér stóra draum um framhaldið. Þórður Svansson sýndi okkur Dalabúið - gamalt kúabú sem stendur fyrir ofan bæinn. Þarna gæti verið flottur staður fyrir sýningu - en húsið er illa farið og það verður mjög dýrt að gera það upp. Kristín sýndi okkur líka hugmyndir að því hvernig hægt væri að grafa göng niður að húsum sem eru undir hrauni og gera sýningu þar. Báðar þessar hugmyndir eru metnaðargjarnar en hafa þann galla að vera mjög dýrar. Nú ríður á að leita raunhæfra leiða til að koma þessum þörfu verkefnum í framkvæmd sem fyrst.

Báðir þessir dramatísku viðburðir geta orðið efniviður í mjög skemmtilegar sýningar sem munu ásamt stórbrotinni náttúru og dýralífi draga fjölda ferðamanna til Vestmannaeyja.

 

 


Mel Gibson og fleiri góðir gestir í Landnámssetri

Það var mikill fjöldi góðra gesta í Landnámssetrinu í gær. Þar hlýtur Mel Gibson, leikarinn og leikstjorinn frægi að teljast fremstur í flokki. Hann kom með ungum syni sínum og Louis ungum kvikmyndagerðarmanni sem ég held reyndar að sé líka sonur hans. Iceland Travel sá um ferð Mel og félaga um Borgarfjörðinn og var Benedikt Erlingsson fenginn til að fylgja þeim um svæðið og segja sögurnar í landslaginu. Mel og föruneyti skoðuðu báðar sýningar Landnámssetur og borðuðu hádegisverði hjá okkur. Heimsóknin fór leynt og kom því skemmtilega á gesti veitingahússins þegar þeir litu stjörnuna alls óvænt augliti til auglítis.

En það voru fleiri fyrirmenn í Landnámssetrinu í gær. Flemming Damgaard Larsen þekkur stjórnmálamaður í Danmörku, þingmaður og formaður samgöngunefndar danska þjóðþingsins heimsótti setrið í fjórða sinn með gesti sína. Flemming er mikill aðdáandi Landnámsseturs og segist ekki láta neitt tækifæri ónotað til að mæla með því. Þar sem Flemming sat að snæðingi birtist Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir og fyrrverandi alþingismaður Bryndís Hlöðversdóttir í salnum. Heiðursgestir okkar voru svo hin merku hjón Ingvar Emilsson og Ása Guðmundsdóttir sem búsett eru í Mexcó. Þau eru mörgum Íslendingum að góðu kunn því þeir eru ófáir sem notið hafa gestrisni þeirra og hjálpsemi í Mexícó. Þau komu í heimsókn með syni sínum Kristjáni og Guðrúnu Ólafsdóttur tengdadóttur. 


Saga til næsta bæjar

Síðasta sagnakvöldið í bili og fleiri fréttir

Sunnudagskvöldið 22. júní kl. 20 verður síðasta kvöldið í sagnamannaskemmtun Landnámsseturs og Rúv Saga til næsta bæjar. Þessi kvöld hafa sýnt og sannað hversu tilvalinn vettvangur Söguloft Landnámsseturs er til að halda á lofti sagnahefðinni og búa sagnamönnum aðstæður til að koma og segja sögur. Þarna erum við í einu elsta húsi Borgarness sem sjálft er allt fullt af sögu. Það brakar í hverju skrefi á gamla gólfinu og hallandi súðin umlykur sögumennina eins og útbreyddur faðmur. 

Þetta síðasta sagnakvöld í bili gefum við orðið laust. Hver sem vill getur komið og sagt sögur að eigin vali.  Alls hafa 16 sagnamenn komið fram á þessum kvöldum og færum við þeim okkar bestu þakkir.

 

Í upphafi var ætlunin að þarna væri einhverskonar keppni í gangi en reynslan kenndi okkur að þó hægt sé að keppa í mörgum greinum er sagnamennska ekki vel til þess fallin. Sögumenn eru eins ólíkir og þeir eru margir og að bera þá saman eins og bera saman epli og appelsínur. En semsagt við ljúkum þessu á sunnudaginn en höfum fullan hug á að endurtaka leikinn síðar.

En að öðru en sagnamennskunni - ó þó því það eru óvenju margir viðburðir síðustu viku sem hljóta að teljast saga til næsta bæjar - td hvað íslenskar konur hafa komið sterkar inn.... íslenskar stelpur að keppa um að fá að taka þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta 2009 - frábær árangur, söfnunin í gærkvöldi þar sem 35 milljónir söfnuðust til kaupa á greiningartæki til viðbótar við 20 milljónir sem áður höfðu safnast.... og kortin sem hún Svana (Svanhvít Aðalsteinsdóttir) og aðrar konur í FKA stóðu fyrir að gera til stuðnings Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Listaverkin sem prýða kortin eru eftir Ástríði Magnúsdóttur, Guðrúnu Einarsdóttur, Karólínu Lárusdóttur, Katrínu Friðriksdóttur, Kristínu Gunnlaugsdóttur og Rúrí. Þær gáfu allar vinnu sína.

Á heimsíðu stofnunarinnar er segir að um sé að ræða sex tækifæriskort í fallegri gjafapakkningu sem verða seld til styrktar Stofnununinni. "Með kortunum vilja íslenskar konur þakka Vigdísi fyrir allt sem hún hefur verið þeim og leggja sitt af mörkum til að draumur hennar um alþjóðlega miðstöð tungumála hér á landi rætist.  Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur unnið ötullega að því að koma á fót slíkri miðstöð sem myndi hýsa rannsóknir á sviði tungumála, bókmennta og menningar ásamt því að bjóða upp á sýningu fyrir almenning þar sem fólk getur fræðst um ólíkar tungur og menningarheima með aðstoð tölvutækni og sýndarveruleika."

Þessi kort verða að sjálfsögðu til sölu í Landnámssetri um leið og við höfum fengið þau til okkar sem verður vonandi í næstu viku.


Besta leikkonan og besti höfundurinn

Ótrúlegt en satt  -  Reyndar ekkert svo ótrúlegt því mér fannst að sjálfssögðu enginn nema Brynhildur ætti að fá Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki og besti höfundur. En semsagt hún vann þessi verðlaun bæði og var tilnefnd eða sýningin og réttara sagt sem besta leiksýning ársins. Og hvað er það við þessa sýningu sem gerir hana einstaka. Þarna er litið pakkhúsloft, reyndar mjög fallega lýst af Jóhanni

Draugabanar, afturgengnar gleðikonur, hálendið og óður til birkihrýslunnar

sögumenn 8. júníAllt þetta og meira til kom við sögu á þriðju sagnakeppni Landnámsseturs og Rásar 1 SÖGU TIL NÆSTA BÆJAR á sunnudagskvöldið á Söguloftinu. Þar kvöddu sér hljóðs Sigurður Atlason, galdramaður af Ströndum, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, Kolbrún Halldórsdóttir, alþingismaður og leikstjóri og Svavar Knútur, túbadúr. Kynnir kvöldsins og stjórnandi var Gísli Einarsson.

Sigurður fór með svo ýkjukennda ferðasögu að maður nánast trúði honum þvi eins og Halldór Laxness sagði víst einhvertíma. "Ekkert er sinn ótrúlegt og sannleikurinn". Í lok frásagnar sinnar hvað Sigurður niður draug af þvílíkum kyngikrafti að hafi einhverjir óhreinir andar verið á sveimi á Söguloftinu þá eru þeir á bak og burt. Næst á eftir Sigurði kom Kristín Helga Gunnarsdóttir, sem reyndar hefur það fram yfir aðra sögumenn að vera búin að safna draugsögum undanfarin ár og árangurinn má lesa í nýjustu 5 stjörnu  bók hennar Á Draugaslóð. Þar rekur hún á sérstaklega skemmtilegan hátt draugasögur sem gerst hafa á Kili. Aðalsaga Kristínar á sunnudagskvöldið gerðist þó víðsfjarri - í henni Barselónu þar sem Kristín bjó ásamt vinkonum sínum í íbúið með afturgenginni gleðikonu sem ekki fann frið í gröf sinni. Sigurður draugabani ætti kannski að skreppa þarna suður og veita vesalings konunni hvíld. 

Kolbrún Halldórsdóttir hóf svo leikinn eftir hlé. Hún hafði reyndar pínulítið verið göbbuð - ekkert minnst á draugasögur eða keppni en erfði það ekki við okkur því með veru sinni uppfyllti hún kynjakvóta Landnámsseturs. Kolbrún byrjaði á að segja okkur sögurnar sem hún ætlaði eiginlega ekki að segja (mjög skemmtilegar ekkisögur) en endaði svo á áhrifamikilli frásögn af gjörningi á hálendinu, þar sem þjóðsöngurinn var meitlaður í gjót og öðrum gjörningi af vörðu sem hlaðin var úr steinum merktum örnefnum af Eyjabökkunum. Kolbrún endaði sína stund á að afhenda fólki lítil nokkra steina úr vörðunni og fól hún því að gæta þeirra vel. Þessi litli gjörnignu Kolbrúnar var ekki síður áhrifamikill en draugadráp Sigurður þó lástemmdari væri. Ég veit reyndar ekki hvernig hann kemur yfir í útvarpi en getur ekki verið áhrifamikið að hlusta þögn í útvarpinu - ef maður getur ímyndað sér hvað á bak við hana er.

Það var Svavar Knútur sem lauk sagnakvöldinu á sunnudagskvöldið með sögum af hrekkjalómum í Kópavogslaug, sem hann og bróðir hans lentu illilega í og síðan sjómannasögu sem fyrir minn smekk var aðeins of mikið fyrir neðan mittisstað en ég er nú bara kelling. Hann endaði aftur á móti á undurfallegum söng um sorgina og gleðina og lauf á birkihríslu í Skagafirði sem hann samdi fyrir dóttur sína og fyrirgafst þar með allt. 

 Áhorfendur kusu svo Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, sögumann kvöldsins en eins og allir vita eru þessar kosningar til gamans gerðar og við þökkum öllum sögumönnunum frábæra frammistöðu.

Þessi sögukvöld Landnámsseturs sem ganga undir nafninu SAGA TIL NÆSTA BÆJAR eru hljóðrituð af Rás 1 og vinnur Einar Kárason, rithöfundur úr efninu samnefnda þætti sem eru á dagskrá Rásar 1 á sunnudagskvöldum kl. 18:30

Næsta sunnudag verður leiknum haldið áfram og þá er þemað - gamansögur. Eins og fyrrikvöld tökum við yfirskriftina ekki of alvarlega og þó kannski meira alvarlega þetta kvöld en önnur því það er betra ef sögurnar eru ekki beinlýnis leiðinlegar. En við höfum nú ekki áhyggjur af því.

Gísli Einarsson mun svo þegar líður á vikuna kynna sagnamenn sunnudagsins - þangað til biðum við spennt.  SMG


Freyr Eyjólfsson sagnamaður vikunnar - draugasögur í bland við aðrar... næst

 

Það var Freyr Eyjólfsson, útvarpsmaður sem fékk flest atkvæði gesta í annarri atrennu sagnakeppninnar SAGA TIL NÆSTA bæjar sem fram fór á Söguloftinu sunnudaginn 1. júní. Unnur Halldórsdóttir, hótelhaldari á Hamri, Gunnar Rögnvaldsson frá Löngumýri og Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku létu sitt þó ekki eftir ligga og vöktu sögur þeirra mikla kátínu. Næsta sunnudag verða draugasögur í aðalhlutverki þó sjálfsagt sé að sveigja þemað aðeins ef svo ber undir.

Sagnakeppnin hefst klukkan átta og það verða svo áheyrendur sjálfir sem dæma og velja sögumanneskju kvöldsins.

Gísli Einarsson er umsjónarmaður og kynnir  en hann sér einnig um að velja sagnamenn. Þeir sem hug hafa á að taka þátt er bent á að hafa samband við Gísla eða senda tölvupóst í landnamssetur@landnam.is

 


Næsta sunnudag er keppt lífsreynslusögum í Landnámssetri.

Nú bíðum við spennt eftir næsta sagnamannakvöldi. Sagnafólkið sem tekst á í lífsreynslu eru þau Unnur Halldórsdóttir, Freyr Eyjólfsson, Gunnar Rögnvaldsson frá Löngumýri og Hákon Aðalsteinsson.   Hákon Aðalsteinsson er löngu þjóðþekktur fyrir skáldskap sinn og góða sagnamennsku. Þá hefur Unnur Halldórsdóttir haldið uppi heiðri sagnamennskunnar  og kveðskapar hér á Vesturlandi sjálf hótelstýran á Hótel Hamri hér á golfvellinum við Borgarnes. Freyr Eyjólfsson útvarpsmaður af rás 2 mun kveða sér hljóðs sem fulltrúi unga fólksins og síðan kemur Gunnar Rögnvaldsson frá Löngumýri með í slaginn norðan úr landi. Það verður ábyggilega mikið fjör og hörku keppni eins og raunin var síðasta sunnudag. Sagnaskemmtunin fór þá fram úr okkar björtustu vonum og hvetjum við alla sem kunna að meta góðar sögur og keppni að mæta. Sagnakeppin hefst klukkan átta og það verða svo áheyrendur sjálfir sem dæma og velja sögumanneskju kvöldsins.

Bjarni Harðarsson vann ýkjusögukeppnina

Það var gaman að heyra hlátrasköllin af Söguloftinu á sunndagskvöldið. Ég komst ekki strax - var að hjálpa í veitingahúsinu en hláturinn heyrðist um allt húsið þegar Ingi Hans sem byrjaði sagði ýkjusögur af Grundfirðingum og fleira fólki. Ég rétt náði sögunni í gráðunga skóarann sem var víst reyndar frá Skotlandi.

Næstur steig á stokk Bjarni Harðarson og fór á kostum í söguskýringum sínum á Njálu. Hann taldi afar erfitt að segja ýkjusögur af Sunnlendingum - þar væri lífið svo ýkt og engu við það að bæta - með smá undantekningum þó. Aftur á móti væri Njála öruggulega mikil ýkjusaga. Síðan leiddi Bjarin okkur í sannleikann um staðreyndir í Njálu sem  ég ætla ekki að tíunda hér en bendi fólki á að hlusta á þættina hans Einars Kárasonar sem verða á sunnudögum í sumar. Reyndar á svipuðum tíma og SAGA TIL NÆSTA BÆJAR fer fram en verður endurtekin daginn eftir.

Á eftir Bjarna sagði Ingi Tryggvason lögfræðingur í Borgarnesi bráðskemmtilegar gamansögur sem flestar voru stórlega ýktar. Ingi hljóp í skarðið á síðustu stundu fyrir Arnar Jónsson sem lagðist í pest með 39° hita.  Að lokum talaði Ásgrímur Ingi Arngrímsson sem kom lang lengst að - alla leið frá Egilsstöðum - akandi. Ég missti af hans flutningi - þurfti aftur að aðstoða í okkar vinsæla veitingahúsi.

 Að loknum flutningi þessara skemmtilegu sagnamanna var gengið til atkvæða.  Mjótt var á munum sérstaklega á milli Inga Hans og Bjarna og eins og kom fram í fyrirsögn var það alþingismaðurinn sem vann. Gísli Einarsson, kynnir kvöldsins og stjórnaði af miklum skörungsskap

Næsta sunnudag höldum við leiknum áfram og keppum í lífsreynslusögum. Fyrirkomulagið verður það sama. Gísli velur sagnamenn en öllum sem vilja freista gæfunnar er velkomið að gefa sig fram við Gísla Einarsson.


Landskeppni sagnamanna hefst sunnudaginn 25. maí kl. 20

Hann Gísli Einarsson hafði samband við mig í byrjun árs og stakk uppá að við efndum til keppni í sagnamennsku í Landnámssetrinu. Frábær hugmynd  – og nú er hún orðin að veruleika – og fyrsta kvöldið á sunnudaginn – keppnin gengur undir nafninu Saga til næsta bæjar og Rás 1 er komið í samvinnu við okkur. 

Einar Kárason mun gera útvarpsþætti úr efninu sem fluttir verða á sunnudögum í sumar.  Ekki veit ég til þess að svona keppni hafi áður verið haldin – frekar ósennilegt – en ef einhver sem þetta les hefur heyrt um svona keppni þá endilega látið okkur vital .  

Og þetta er alvöru keppni. Það verður keppt í fjórum riðlum: ýkjusögum, draugasögum, lífsreynslusögum og gamansögum. Við byrjum á ýkjsögum á sunnudaginn 25. maí, draugasögur eru næst þann 1. júní, því næst lífsreynslusögur 8. júní og að lokum gamansögur 15. júní.  Sunnudaginn 22. júní keppa sigurvegarar fyrri kvölda svo til úrslita og segja þá sögur að eigin vali. Það eru gestir sem velja besta sagnamanninn kvöldsins með leynilegri atkvæðagreiðslu. Svo það eru um að gera að smala stuðningsmönnum á staðinn. 

Kynnir og stjórnandi er Gísli Einarsson. Og verðlaunin verða vegleg – alla vega mikill heiður. Aðalsögumenn fyrsta kvöldið þann 25. maí eru Bjarni Harðarson frá Suðurlandi, Ingi Hans Jónsson frá Vesturlandi, Arnar Jónsson frá Norðurlandi og Ásgrímur Ingi Arngrímsson frá Austurlandi. 

Á undan keppninni geta gestir snætt gómsætan þriggja rétta alíslenskan kvöldverð. Úr hráefnum sem sagnamenn allra tíma á Íslandi hafa haft aðgang að: Forréttur: Heitreyktar svartfuglsbringur með nýorpnum svartfuglseggjum af Mýrunum,Aðalréttur: Hrefnusteik með humri frá Hornafirði

Eftirréttur: Bláberjaskyr með rjóma. Verð kr. 4500 (innifalinn aðgangseyrir og atkvæðaréttur á Sögu til næsta bæjar) Aðgangseyrir og atkvæðaréttur á sagnakvöldið kr. 1800 (matargestir fá frítt) 

Öllum er velkomið að sækja um þátttöku með því að senda tölvupósti til landnamssetur@landnam.is  Það verður svo geðþóttaákvörðun kynnis og stjórnanda hverjir komast að. Einnig verður gestum gefinn kostur á að kveða sér hljóðs og  segja sögu eftir því sem tíminn og stjórnandinn leyfa. 

Allar frekari upplýsingar veitir Sigríður Margrét í síma 895 5460 og Gísli Einarsson í síma 8994098


Til hamingju Brynhildur

Það verður nú að viðurkennast að við vorum stolt og glöð að vera boðuð til að taka á móti tilnefningum til Grímuverðlauna í Þjóðleikhúsinu. Þar var Brák eftir og í flutningi Brynhildar Guðjónsdóttur og í leikstjórn Atla Rafns Sigurðarsonar tilnefndt til þriggja verðlauna.

Gríman er eins og flestir vita leiklistarverðlaun sem veitt eru þeim við öllleikhúslistamönnum sem skarað hafa frammúr á árinu. Brynhildur var tilnefnd sem besta leikkona ársins í aðalhlutverki, sem besta leikskáld ársins og sýningin sem besta leiksýning ársins.

 

Verndari Grímunnar er forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og ítrekaði hann það sem hann hefur áður sagt að í raun sé tilnefningin mikilvægari en sjálf verðlaunin því það val geti verið tilviljunum háð og ráðist af því td við hvers konar sýningar er keppt. Við tökum undir þessi orð forsetans og fögnum því eins og sigurvegarar að hafa fengið þessa tilnefningar.

Árið 2007 fékk önnur sýning Landnámsseturs Mr. Skallagrímsson eftir Benedikt Erlingsson í leikstjórn Peters Engkvist þessar sömu tilnefningar, auk þess fékk Benedikt tilnefningu sem besti leikstjórinn. Skemmst er frá því að segja að hann vann þrenn Grímuverðlaun í fyrra og var sóttur í þyrlu í Borgarnes. Benedikt var valinn besti leikarinn og besta leikskáldið fyrir Mr. Skallagrímsson og besti leikstjórinn fyrir Ófagra veröld.

Mér fannst líka sérstaklega gaman að Fool for love leiksýning sem sett var á svið í gamla Silfur tunglinu af leikhóp sem hafði lítið sem ekkert fjármagn en þess meiri eldmóð og hæfileika skyldi fá að mig minnir 5 tilnefningar. Þar af fékk KK okkar kæri vinur tvær sem besti höfundur tónlistar og besti söngvari. Ég sá þessa sýningu því miður ekki en nú segja mér fróðir menn að María Sigurðardóttir nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar að hún hafi tryggt sér hana norður. Ég hlakka til að fara í leikhúsferð til Akureyrar í haust.

 smg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Landnámssetur Íslands ehf

Höfundur

Landnámssetur Íslands ehf
Landnámssetur  Íslands ehf
Landnámssetur er í Borgarnesi. Þar er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu eins og leiksýningar, sýningar um landnámið og Egils sögu. Þar er einnig starfrækt gott veitingahús með ókeypis nettengingu sem opið er alla daga til kl. 17 og lengur frameftir um helgar. Í Landnámssetri er líka falleg gjafavöruverslun með úrvali óvenjulegra gjafa flesta eftir íslenska hönnuði.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • BRÁK,JÓL OG ÁRAMÓT 098
  • plaggat
  • Frá frumsýningu
  • ...frumsyningu
  • Brák netútgáfa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 14068

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband